Gorgonzola- og skinkubaka

 

4 smjördeigsplötur

75 g hráskinka, skorin í örþunnar sneiðar (eða 150 g góð soðin skinka)

200 g ricotta-ostur

50-75 g gorgonzola-ostur

2 egg

200 ml matreiðslurjómi eða mjólk

1 tsk ferskt rósmarín, saxað smátt (má sleppa)

1/4 tsk múskat, helst nýrifið

1/2 tsk nýmalaður pipar

svolítið salt

 

Ofninn hitaður í 215 gráður og smjördeigið látið þiðna. Það er svo lagt á

létt-hveitistráð borð þannig að plöturnar skarist svolítið, brúnunum þrýst

saman og svo er deigið flatt út þar til hægt er að skera út hring, svolítið

stærri en meðalstórt bökumót. Deigið lagt yfir mótið og þrýst létt niður.

Skinkan skorin í stóra bita og helmingnum af þeim dreift á deigbotninn.

Ricotta-ostur, gorgonzola-ostur, egg, rjómi og krydd þeytt saman í

matvinnsluvél, eða hrært í hrærivél. Hellt yfir skinkuna og svo er

afganginum af skinkubitunum dreift yfir. Sett í ofninn og bakað í um 25

mínútur, eða þar til fyllingin er farin að stífna og hefur tekið góðan lit.

Ef hún virðist ætla að dökkna of fljótt er álpappír breiddur yfir.

 

Bökuna má borða heita eða volga en hún er jafnvel betri köld.

 

Nanna