Túnfisk-tómatpasta

 

2 msk ólífuolía

1 laukur, saxaður smátt

1-2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt

1 sellerístöngull, saxaður (má sleppa)

1 stórt, milt chilialdin eða 1 rauð paprika

1 dós túnfiskur í olíu

1 dós saxaðir tómatar

vatn

1 lárviðarlauf

1/2 tsk oregano

1/2 tsk sykur

nýmalaður pipar

salt

400 g pasta, t.d. penne eða gnocchi (skeljar)

 

Olían hituð á þykkbotna pönnu eða í potti og laukurinn, hvítlaukurinn og

selleríið látið krauma í henni við fremur vægan hita í nokkrar mínútur án

þess að brúnast. Chilialdinið (eða paprikan) fræhreinsað og skorið í fremur

litla bita. Sett út í og látið krauma í 1-2 mínútur í viðbót en þá er

olíunni hellt af túnfiskinum og hann settur út í, marinn sundur með

sleifinni og látinn malla í 3-4 mínútur í viðbót. Tómatarnir settir út í

ásamt svona hálfri dós af vatni. Hitað að suðu, kryddað með oregano, sykri,

pipar og salti og látið malla við hægan hita í 15-20 mínútur; hrært öðru

hverju og svolitlu vatni bætt við ef þarf, en sósan á að vera fremur þykk.

Smökkuð til með pipar og salti. Á meðan er pastað soðið í saltvatni samkvæmt

leiðbeiningum á umbúðum. Þegar það er rétt orðið meyrt er því hellt í sigti

og látið renna vel af því. Hvolft í skál og sósunni hellt yfir (einnig má

bera hana fram með).

 

Æi, já, og ekki gleyma að fjarlægja lárviðarlaufið. Ég gleymi því alltaf.

 

Nanna